Evrópusambandið hvatti í gær öll ríki til þess að undirrita alþjóðasamning gegn pyntingum. Í yfirlýsingu Evrópusambandsins segir að pyntingar séu ekki aðeins "grimmilegar, ómannúðlegar og niðurlægjandi" fyrir hvern þann sem fyrir þeim verður, heldur einnig fyrir alla sem fremja slíkan verknað og líka fyrir þau samfélög sem "láta sér lynda slíka óhæfu."
Evrópusambandið fordæmir í yfirlýsingunni allar tilraunir ríkja eða embættismanna til þess að lögleiða pyntingar eða láta þær viðgangast undir hvaða formerkjum sem er, jafnvel þótt ráðamenn einhvers lands geri það með tilvísun í öryggi eigin þjóðar.
Í yfirlýsingunni er hvergi minnst á meinta tilveru leynilegra fangelsa á vegum Bandarísku leyniþjónustunnar í ríkjum Austur-Evrópu, þar sem margir telja að pyntingar séu stundaðar.
"Evrópusambandið leggur gríðarmikla áherslu á hlutverk Sameinuðu þjóðanna í baráttu gegn pyntingum og til stuðnings fórnarlömbum," segir í yfirlýsingunni.
Evrópusambandið sendi þessa yfirlýsingu frá sér sama daginn og Sameinuðu þjóðirnar héldu í níunda sinn árlegan dag til stuðnings fórnarlömbum pyntinga.