Í nýrri skoðanakönnun mælist fylgi við Jafnaðarmannaflokk Görans Persson forsætisráðherra og samstarfsflokka hans nú í fyrsta sinn frá því í vor meira en fylgi kosningabandalags borgaralegu flokkanna. Þingkosningar fara fram í Svíþjóð 17. september.
Í könnun Ruabs-stofnunarinnar fyrir blaðið Dagens Industri mælist fylgi vinstriflokkanna nú 49,6 prósent en borgaraflokkanna 47,9 prósent. Síðustu tvo mánuði hafa borgaraflokkarnir, með forsætis-ráðherraefnið Fredrik Reinfeldt í broddi fylkingar, mælst með nokkurt forskot á vinstriflokkana. Hátt í þriðjungur kjósenda segist enn óákveðinn.
Borgaraflokkarnir fjórir kynntu sameiginlega kosningastefnuskrá sína í Gustavsberg, austur af Stokkhólmi í fyrradag. Þeir leggja mesta áherslu á skattalækkanir og að snúið verði af þeirri braut að hætta notkun kjarnorkunnar. Jafnaðarmenn segjast hins vegar munu nota auknar tekjur ríkissjóðs vegna hagvaxtar til að styrkja velferðarkerfið.