Spánarmeistarar Barcelona unnu stórsigur á Real Betis í kvöld og tryggðu stöðu sína á toppi La Liga deildarinnar. Real Madrid vann einnig öruggan sigur, þeir lögðu Alaves 3-0 á heimavelli.
Sænski framherjinn Henrik Larsson opnaði markareikning kvöldsins með góðu marki á 17. mínútu í leiknum gegn Betis sem virkuðu sem unglingar gegn ógnarsterku liði Barcelona. Juan Andreu Melli varnarmaður Betis var einkar óheppinn í kvöld en hann skoraði tvö sjálfsmörk og kom Barcelona í 3-0 áður en fyrri hálfleik lauk.
Ronaldinho bætti svo við fjórða markinu áður en Joaquin lagaði stöðuna fyrir Betis í 4-1. Það var svo Argentínski táningurinn Lionel Messi sem innsiglaði glæstan sigur Barcelona sem láta engan bilbug á sér finna þessa dagana en þeir mæta Chelsea í Meistaradeild Evrópu á miðvikudaginn.
Úrslit kvöldsins:
Real Madrid 3-0 Alaves
Villareal 4-0 Espanyol
Sevilla 1-0 Celta Vigo