Ísraelsk stjórnvöld hóta grimmilegum hefndaraðgerðum verði ungur ísraelskur hermaður, sem herskáir Palestínumenn rændu í gær, ekki látinn laus þegar í stað. Spenna hefur magnast við landamærin að Gaza-svæðinu síðasta sólahringinn vegna málsins.
Árásarmennirnir, sjö eða átta talsins, skriðu í gegnum þrjú hundruð metra löng göng sem voru grafin undir landamæragirðinguna við Kerem Shalom. Þar réðust þeir til atlögu við hermenn á vakt vopnaðir skammbyssum og sprengjum. Tveir hermenn og þrír herskáir Palestínumenn féllu í átökunum. Árásarmennirnir rændu einum hermanni, hinum 19 ára gamla Gilad Shalit. Vopnaður armur Hamas-samtakanna og önnur herská samtök hafa lýst árásinni á hendur sér. Hún er sögð gerð í hefndarskyni fyrir árásir Ísraelshers sem hafa kostað marga Palestínumenn lífið í þessum mánuði.
Nokkrum klukkustundum eftir árásina var tugum ísraelskra skriðdreka komið fyrir á Gaza og og hefur liðssafnaður á svæðinu haldið áfram í morgun. Auk þess voru göngin sem árásarmennirnir notuðu eyðilögð. Öryggisgæsla í Jerúsalem hefur einnig verið hert til muna. Ekki er vitað með vissu hvort hermaðurinn ungi er lífs eða liðinn en Ísraelsher telur hann þó enn á lífi. Ráðamenn segja heimastjórn Hamas- liða bera ábyrgð á því að honum verið skilað heilu og höldnu.
Amir Peretz, varnarmálaráðherra Ísraels, hefur hótað grimmilegum hefndaraðgerðum ef svo verði ekki en stjórnvöld í Jerúsalem grípa ekki til harkalegra aðgerða fyrr en allt hefur verið reynt til að tryggja lausn Shalits.
Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, og Ismail Haniyeh, forsætisráðherra, hittust á neyðarfundi um málið síðdegis í gær. Abbas hvatti til lausnar Shalits í gær og sagði mannránið ganga gegn hagsmunum Palestínumanna. Abbas og Haniyeh halda áfram viðræðum í dag.