Þriðja hver stúlka á Grænlandi hefur verið misnotuð kynferðislega áður en hún nær fimmtán ára aldri, samkvæmt könnun sem grænlenska heimastjórnin lét gera.
Könnunin var gerð í sjö grænlenskum bæjum. Í niðurstöðum hennar kemur meðal annars fram að misnotkun er algengari þar sem áfengi er vandamál á heimilum, en áfengi er einmitt vandamál á mörgum heimilum á Grænlandi.
Kuno Sörensen, sálfræðingur hjá dönsku samtökunum Björgum barninu, segir að þeir hafi lengi vitað að kynferðisleg misnotkun á börnum sé algengari á Grænlandi en í Danmörku, en þetta séu skelfilegar niðurstöður sem verði að bregðast við.