Innanríkisráðherra Frakklands, Nicholas Sarkozy, kynnti í gær umdeilt frumvarp á franska þinginu sem ætlað er að taka á óæskilegri hegðun ungmenna. Það sem harðast er deilt á er ákvæði sem heimilar bæjar- og borgarstjórum að svipta fjölskyldur vandræðaunglinga atvinnuleysis- og húsnæðisbótum ef þörf krefur.
Félag sálfræðinga hefur einnig gagnrýnt að ekki hafi verið haft samráð við sérfræðinga á því sviði við undirbúning frumvarpsins. Ólæti ungmenna hafa verið mikið í umræðunni í Frakklandi frá því bílar voru brenndir og önnur skemmdarverk unnin í úthverfum Parísar og annarra borga í Frakklandi fyrir tæpu ári síðan.