Skoðun

Árangur Íslenska dansflokksins

Í gagnrýni um dansleikhússamkeppni Íslenska dansflokksins og Leikfélags Reykjavíkur í Fréttablaðinu í gær, eyðir Páll Baldvin Baldvinsson, drjúgu plássi í að fjalla um árangur í starfi Íslenska dansflokksins. Þar setur hann fram nokkrar fullyrðingar sem ástæða er til að svara. „Dansleikhússamkeppnin hefur enda engu skilað: verkin eru ekki endurflutt," skrifar Páll.

Íslenski dansflokkurinn hefur frá því keppnin hófst árið 2003 þróað verkefni áfram og gefið verðlaunahöfundum frekari tækifæri. Dæmi. Vinningsverk Helenu Jónsdóttur í fyrstu keppninni árið 2003, Open Source, var þróað áfram og frumsýnt í fullri lengd í febrúar 2005 á vegum Id. Verkið hefur verið sýnt áfram, nú síðast í Kína í maí og verður tekið upp að nýju í september n.k.

Verk Guðmundar Helgasonar, Party, sem vann áhorfendaverðlaun árið 2003, var sýnt á vegum flokksins, sem hluti af haustsýningu það ár.

Halla Ólafsdóttir, sem sigraði keppnina árið 2005, samdi verk fyrir danssmiðju Id starfsárið 2005-2006.

Tveir verðlaunahöfundar, Marta Nordal og Peter Anderson, hafa í vetur þróað verk á vegum Id og LR og var fyrsti afrakstur þeirrar vinnu sýndur á föstudagskvöld.

„[N]ýsmíði verka stopult áhugamál...." segir enn fremur í gagnrýninni. Frá árinu 1996 til dagsins í dag hefur Íslenski dansflokkurinn frumsýnt 25 stærri íslensk dansverk, sem öll hafa verið frumsamin. Á sama tíma hefur flokkurinn sýnt 28 erlend verk, þar af hafa 14 verk verið frumsamin fyrir flokkinn. Yfir 20 önnur smærri verkefni og samstarfsverkefni hafa verið sýnd á sama tíma og hafa Íslendingar verið höfundar allra þeirra verkefna. Flokkurinn hefur m.a. staðið fyrir 8 danssmiðjum á síðustu 3 árum þar sem ungir danshöfundar hafa spreytt sig við nýsmíði. Þeir höfundar hafa all flestir komið úr sjálfstæða geiranum og hefur því flokkurinn sannarlega stundað „brúarsmíð" milli aðila í íslenska dansheiminum.

Aðsókn að íslenskum listdansi má sannarlega efla og fagnar Íslenski dansflokkurinn allri málaefnalegri umræðu um hvernig styrkja megi stöðu dansins meðal listgreina.




Skoðun

Sjá meira


×