Að mæla nákvæma lengd vatnsfalla er ekki alltaf eins einfalt og það kann að virðast í fyrstu. Þrír þættir skipta þar töluverðu máli: Hver skilgreind upptök vatnsfallsins eru, hvar það endar nákvæmlega og hversu nákvæm gögn eru notuð til þess að mæla fjarlægðina þar á milli.
Vatn í stórum vatnsföllum kemur venjulega úr mörgum ám. Upptök vatnsfalls eru þá yfirleitt miðuð við upptök þeirrar ár sem er lengst frá ósum þó svo að sú á kunni að bera annað heiti en meginvatnsfallið. Slíkt á til dæmis við um Þjórsá, lengsta vatnsfall á Íslandi, sem við upptök sín kallast Bergvatnskvísl en fær ekki nafnið Þjórsá fyrr en neðar.
Hver eru lengstu fljót í heimi?
