Tzipi Livni, utanríkisráðherra Ísraels hefur hvatt Ehud Olmert til þess að segja af sér sem forsætisráðherra. Hún segir jafnframt að hún muni sækjast eftir forystu í Kadima-flokki hans. Livni skýrði frá þessu þegar hún kom af tveggja manna fundi sínum með Olmert.
Ísraelskir fjölmiðlar segja að Livni hafi sett Olmert úrslitakosti á þessum fundi. Annaðhvort segi hann af sér sjálfviljugur eða hún muni leiða uppreisn gegn honum í eigin flokki. Avigdor Yitzhaki, einn af áhrifamestu þingmönnum Kadima flokksins, hvatti Olmert fyrr í dag til þess að segja af sér.