Kona sem var á reiðhjóli sínu á leið á milli Næstved og Karrebæksminde í Danmörku, varð aldeilis hneyksluð þegar hún hjólaði framá allsnakið par í villtum samförum á akri við veginn. Hún hringdi samstundis í pólitíið sem sendi vaska sveit á vettvang.
Þegar valdstjórnin kom á vettvang hafði leikur skötuhjúanna þróast yfir í stellingu sem kennd er við tölurnar sex og níu. Þau gerðu þó hlé á leik sínum til þess að gera grein fyrir sér. Kom þá í ljós að yfirvöld vildu hafa tal af manninum fyrir bílþjófnað. Auk þess var hann með hálft gramm af hassi á sér.
Hann var því ákærður fyrir þjófnað og fíkniefnabrot. Hinsvegar gerði valdstjórnin ekki athugasemdir við hjarðlíf þeirra á akrinum.