Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, sakar Hamas-liða um að reyna að koma á fót eigin ríki á Gaza. Í ræðu sem Abbas flutti í dag fordæmdi hann Hamas og sagði þau skipuð grimmum hryðjuverkamönnum eftir að þau yfirtóku Gaza í síðustu viku.
Abbas útilokaði allar viðræður við hreyfinguna en sagði að ástandið myndi ekki koma í veg fyrir friðarviðræður við Ísraela. Osama Hamdan, leiðtogi Hamas í Líbanon, fordæmdi ræðu Abbas og sagði hana "fulla af lygum".
"Það er óviðeigandi af forseta að útiloka viðræður við hluta af þjóð hans," sagði Hamdan meðal annars.
Í síðustu viku hertóku vopnaðar sveitir Hamas meðal annars höfuðstöðvar Fatah á Gaza.