Líbanskar hersveitir sóttu í dag lengra inn í flóttamannabúðir þar sem þær hafa barist við liðsmenn Fatah al-Islam síðan 20. maí síðastliðinn. Samtökin eru sögð tengjast Al Kæda. Líbanski herinn hefur nú hrakið liðsmenn þeirra inn í lítið horn flóttamannabúðanna. Að minnsta kosti 227 hafa fallið í þessum átökum.
Um 40 þúsund Palestínumenn bjuggu í þessum flóttamannabúðum, sem eru í norðurhluta landsins. Búðirnar eru nú í rúst eftir bardagana og nánast allir íbúarnir flúnir. Áköf skothríð og sprengingar heyrðust frá búðunum í dag, þegar líbanski herinn sótti þangað inn. Liðsmenn Fatah al-Islam hafa stöðugt neitað að gefast upp og segjast munu berjast til síðasta manns.