Tíu einstaklingar sem ekkert tengjast innbyrðis telja sig hafa séð Madeleine McCann í Marokkó á undanförnum misserum. Einkaspæjarar sem vinna fyrir McCann hjónin eru að rannsaka þessar vísbendingar. Spæjararnir vinna fyrir fyrirtækið Metodo 3 í Barselóna.
Fyrirtækið hefur sérhæft sig í að finna týnd börn. Að sögn breska blaðsins Daily Mail hefur þeim á undanförnum árum tekist að hafa upp á 23 börnum sem höfðu horfið sporlaust. Meðal þeirra sem telja sig hafa séð Madeleine í Marokkó er norsk kona Mari Pollard, sem telur sig hafa séð telpuna í Marrakesh í maí.
Jeannie Thompson frá Bretlandi telur sig einnig hafa séð hana þar í borg í maí. Báðar konurnar segja að telpan hafi verið í fylgd með konu um sextugt. Hár hennar hafi verið ívið styttra en Madeleine var með á myndum. Að öðru leyti hafi hún verið eins.

