Öryggissveitir Hamas á Gaza ströndinni réðust í dag inn í hverfi stuðningsmanna Fatah hreyfingarinnar. Fatah hefndi sín með árásum á hverfi Hamas á Vesturbakkanum.
Ekki er vitað um mannfall í þessum bardögum en að minnsta kosti níu særðust. Hamas liðar segjast hafa handtekið 200 manns. Stuðningsmenn Fatah eru grunaðir um sprengjutilræði í síðustu viku sem kostað fimm Hamas liða llífið sem og sex ára telpu.
Fatah samtökin á Vesturbakkanum hefndu sín með árásum á hverfi Hamas. Ekki er vitað þar um mannfall eða hversu margir voru handteknir.
Oft hefur komið til átaka milli liðsmanna þessara tveggja hreyfinga síðan Hamas hertóku Gaza ströndina á síðasta ári og hröktu þaðan Mahmoud Abbas forseta palestínumanna og liðsmenn hans.
Hamas samtökin eru alfarið á móti friðarsamningum við Ísrael og gera sitt besta til þess að spilla fyrir samningaviðræðum.
Fatah hreyfingin undir stjórn Abbas er mun hófsamari og leggur áherslu á að friðarsamningar náist.
Hreyfingin hefur viðurkennt tilverurétt Ísraelsríkis, nokkuð sem Hamas segjast aldrei munu gera.