Viðskipti innlent

Norðmenn tapa á fjárfestingum í íslenskum fyrirtækjum

Norski fáninn blaktir á olíuborpalli.
Norski fáninn blaktir á olíuborpalli.

Norski olíusjóðurinn kann að tapa allt að 15 milljörðum íslenskra króna á fjárfestingum í íslenskum bönkum og fjármálafyrirtækjum. Töluvert hefur verið fjallað um íslenskt efnhagslíf í norskum fjölmiðlum að undanförnu.

Á vefútgáfu norska viðskiptablaðsins Finansavisen kemur fram að norski olíusjóðurinn hafi á undanförnum árum fjárfest sem samsvarar um 60 milljörðum íslenskra króna í íslenskum bönkum og fjármálafyrirtækjum. Miklar lækkanir á íslenskum hlutabréfamarkaði að undanförnu hafi því komið sér illa fyrir sjóðinn. Áætlað tap hans vegna þessara fjárfestinga er talið nema um 15 milljörðum íslenskra króna miðað við núverandi gengi.

Töluvert hefur verið fjallað um íslenskt efnhagslíf í norskum fjölmiðlum að undanförnu. Meðal annars um stöðu Kaupþings banka sem hefur aflað sér nokkurra vinsælda vegna hárra innlánsvaxta. Rætt er um að bankinn hafi orðið illa úti í lánsfjárkreppunni og í Finansavisen er meðal annars varpað fram þeirri spurningu hvort hann kunni að fara á hausinn.

Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, vísar þessu á bug í viðtali við norska blaðið Næringsliv. Bendir hann á að síðasta ár hafi verið eitt það besta í sögu bankans. Hann segir stöðu bankans vera sterka þrátt fyrir að erlendir fjárfestar hafi reynt að tala íslensku bankana og íslenskt efnahagslíf niður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×