Skoðun

Íþyngjandi að mega ekki beita ofbeldi

Drífa Snædal skrifar
Umræðan

Kynferðisafbrot

Það þykir of íþyngjandi fyrir mann sem hefur beitt sambýliskonu sína hroðalegu andlegu, kynferðislegu og líkamlegu ofbeldi í þrjú ár að mega ekki hafa samband við hana áfram. Það er of mikil skerðing á hans frelsi að mega ekki setja sig í samband við hana, veita henni eftirför eða koma nær heimili hennar en 50 metra. Hann beitti hana ofbeldi í þrjú ár, barði hana, nauðgaði henni og veitti öðrum körlum aðgang að henni gegn hennar vilja. Hún var of hrædd við hann til að streitast á móti. Hún þurfti aðstoð lögreglu til að komast frá honum og sótti í Kvennaathvarfið. Hún þorði ekki ein að sækja eigur sínar á heimili þeirra, heldur fékk lögregluna í lið með sér. Hún þorði ekki að kæra hann en málið þótti svo alvarlegt að opinber kæra var lögð fram engu síður.

Eftir að maðurinn sat í gæsluvarðhaldi í tvær vikur var hann settur í nálgunarbann í hálft ár þrátt fyrir að Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari hefði ekki þá séð tilefni til nálgunarbanns. Hinir tveir dómararnir, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson, staðfestu nálgunarbann í hálft ár. Hinn 7. ágúst síðastliðinn dæmdu Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson að ekki þætti ástæða til að framlengja nálgunarbannið - maðurinn hafði nefnilega virt bannið hingað til AÐ MESTU. Páll Hreinsson skilaði sératkvæði í dómnum og vildi framlengja nálgunarbannið um þrjá mánuði eins og lögreglan lagði til. Áhugavert er að velta upp þeirri spurningu hvenær Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari telur ástæðu til að beita nálgunarbanni.

Hvenær er réttlætanlegt að taka öryggi og hagsmuni fórnarlamba ofbeldis fram yfir rétt ofbeldismanna til að setja sig í samband við, veita eftirför og koma að heimili fórnarlamba sinna? Hvenær er tilefni til að "kerfið" verndi konur gegn kynbundnu ofbeldi? Eftir nýfallinn dóm er nálgunarbannsúrræðið gert að engu. Það er sennilega vandfundið annað eins tilefni til að beita því. Sumum í réttarkerfinu finnst ekki tilefni til að beita kerfinu til að vernda konur sem verða fyrir ofbeldi - við erum ekki komin lengra en svo í jafnréttisbaráttunni.Höfundur er framkvæmdastýra Vinstri grænna.

 




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×