Bandarískur prestur hefur verið dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir að smygla 20 skothylkjum til Rússlands. Skotin voru í veiðiriffil og Phillip Miles ætlaði að gefa þau vini sínum sem er prestur í borginni Perm í Úralfjöllum.
Dómurinn féllst ekki á þá vörn að hann hefði ekki vitað að það væri ólöglegt að flytja skotfæri til Rússlands.
Interfax fréttastofan hefur eftir séra Miles að hann iðrist þess að hafa brotið rússnesk lög. Honum finnist dómurinn hinsvegar býsna þungur. Verjendur prestsins segja að dóminum verði áfrýjað.