Ekki verður ákveðið fyrr en í fyrsta lagi eftir helgi hvort Birgir Páll Marteinsson áfrýji sjö ára fangelsisdómi sem hann hlaut í Færeyjum í gær fyrir fíkniefnamisferli.
Birgir Páll var sýknaður af ákæru um að hafa undirbúið og skipulagt smygl í Pólstjörnumálinu svokallaða en sakfelldur fyrir vörslu efna í Færeyjum.
Lögfræðingur hans, Olavur Jákup Kristoffersen, sagði í samtali við fréttastofu síðdegis að hann myndi funda með saksóknara um málið á mánudaginn. Fyrr yrði ekkert ákveðið um hvort refsingunni yrði áfrýjað.
Birgir Páll getur ekki áfrýjað sakfellingunni en hann getur áfýjað fangelsisdómnum sem æðra dómstig gæti þyngt eða létt eftir atvikum.
Olavur Jákup bendir á að ákæruvaldið hafi ekkert gefið upp um það hvort hann ætli að áfrýja en það fór fram á 10 ára fangelsisdóm.
Báðir aðilar hafa 14 daga frá dómsuppkvaðningu til að ákveða hvort áfrýjað verði eða ekki.