Yab Yum, frægasta hóruhúsið í Amsterdam verður að loka dyrum sínum næstkomandi mánudag, samkvæmt dómsúrskurði sem kveðinn var upp í dag.
Borgarstjórnin í Amsterdam afturkallaði starfsleyfi hússins í síðasta mánuði. Þar var stuðst við lagaákvæði sem leyfir borgarstjórninni að loka fyrirtækjum sem tengist glæpastarfsemi. Borgarstjórnin segir að Yab Yum sé nú í höndum Hells Angeles.
Þessu neituðu eigendurnir og áfrýjuðu til dómstóla. Og töpuðu í dag. Þeir eru þó ekki á þeim buxunum að gefast upp og ætla með málið fyrir áfrýjunardómstól.
Borgaryfirvöld í Amsterdam skáru í desember upp herör gegn rauða hverfinu, sem lið í baráttunni gegn mansali, peningaþvætti og eiturlyfjum.
Búddistar syrgja varla lokun þessa staðar, en Yab Yum er beint úr tíbetsku og þýðir faðir-móðir.