Körfuknattleiksdeild KR hefur fengið Bandaríkjamanninn Jason Dourisseau til reynslu, en hann er framherji sem spilað hefur í Þýskalandi. Hann er 24 ára gamall og tæpir tveir metrar á hæð.
Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR, segist hafa fengið leikmanninn vegna góðra meðmæla og ku hann vera góður varnarmaður og liðsspilari.
Dourisseau lék áður með Nebraska háskólanum í Bandaríkjunum en lék í tvö ár í Þýskalandi með Brandon Woudstra, sem áður lék með Njarðvíkingum. Sá mun hafa látið vel af bandaríska leikmanninum, sem nú fær að reyna sig með KR.