Ólíklegt er að önnur plata Hjaltalín líti dagsins ljós á þessu ári.
„Það er ekki búið að negla það niður en það er allt eins líklegt að hún komi út á næsta ári,“ segir Steinþór Helgi Arnsteinsson, umboðsmaður Hjaltalín. Nánast öruggt er að platan komi ekki út í október eins og talið var í fyrstu.
„Hljóðvinnslan hefur gengið mjög vel en þetta er orðið miklu stærra en menn ætluðu sér í upphafi. Menn ætla að sinna þessu gaumgæfilega og frekar gera þetta vel og örugglega en hratt og illa,“ segir Steinþór.
Hjaltalín á fimmtán lög á lager sem hún á eftir að fínpússa. Fari svo að stóra platan komi ekki út á þessu ári verður hugsanlega gefin út EP-plata til að halda aðdáendum sveitarinnar við efnið.
Steinþór vill ekki meina að peningavandræði séu ein af ástæðum seinkunarinnar. „Við höfum verið að leggjast í mjög dýr ferðalög en við erum ekkert í neinum vandræðum. Óhagstætt gengi krónunnar hefur vissulega komið niður á okkur á þessum ferðalögum, það er ekkert launungarmál.“
Hjaltalín er núna úti í Þýskalandi á tónleikaferð en í september hægist um hjá sveitinni og þá kemur endanlega í ljós hvort platan verði kláruð á þessu ári eður ei. Fyrsta plata Hjaltalín, Sleepdrunk Seasons, kom út fyrir jólin 2007 við frábærar viðtökur gagnrýnenda og almennings.
Hjaltalín seinkar plötuútgáfu
