Tommy Johnson hélt upp á afmælið sitt í kvöld með góðri frammistöðu gegn hans gömlu félögum í Keflavík er KR vann þar góðan sigur, 100-85.
Johnson skoraði 29 stig í leiknum, þar af 20 í fyrri hálfleik. Hann setti svo niður tvö þriggja stiga skot með stuttu millibili í lok fjórða leikhluta og átti stóran þátt í því að tryggja KR-ingum sigur.
„Þetta var góður afmælisdagur. Ég var ánægður með mína frammistöðu," sagði Tommy eftir leikinn. „Mér finnst gott að spila í Keflavík - hér varð ég Íslandsmeistari og ég vil vera viss um að þeir gleyma mér ekki hér."
Hann hefur átt nokkuð erfitt uppdráttar í haust en náði sér vel á strik í kvöld.
„Þetta var í raun fyrsti leikurinn þar sem ég spilaði eins vel og ég á að gera. Þetta hefur verið erfitt hjá okkur í KR í haust enda miklar væntingar gerðar til liðsins. Það hefur líka reynst erfitt að fylgja í fótspor liðsins sem varð meistari í vor. Ég tel þó að við séum á réttri leið."
Sjálfur hafði hann þó aldrei áhyggjur af sinni stöðu í KR-liðinu og að sjálfstraust hans hafi ekki minnkað.
„Nei, ég hafði engar áhyggjur. Og ef sjálfstraustið væri ekki í lagi hefði ég ekki spilað hér í kvöld."
Tommy Johnson: Góður afmælisdagur
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Mest lesið



Forest tók stórt skref í átt að Meistaradeild Evrópu
Enski boltinn

Trúir á Óla Kristjáns og Jesú Krist
Íslenski boltinn





