Þýska liðið Bayern Munchen hefur fengið stórlið til að taka þátt í sumarmóti félagsins sem fram fer í fyrsta sinn í lok júlí. Mótið nefnist Audi-bikarinn og þar keppa auk heimamanna Manchester United, AC Milan og Boca Juniors.
Það er búið að draga í undanúrslitin þar sem Bayern mætir mætir AC Milan í öðrum leiknum en í hinum leiknum mætast þá Manchester United og argentínska liðið Boca Juniors. Undanúrslitaleikirnir fara fram 29. júlí.
Öll félögin sendu fulltrúa þegar dregið var í undanúrslitin í gær en þangað komu Willy Sagnol frá Bayern, Gennaro Gattuso frá AC Milan, Wes Brown frá Manchester og framkvæmdastjóri Boca, Carlos Bianchi.
Mótið er haldið í tilefni af aldarafmæli samstarfsins á milli þýska bílaframleiðandans og Bayern Munchen. "Við erum stoltir að hafa tekist að lokka þessi stórlið til að spila á Audi-bikarnum í M unchen," sagði Rupert Stadler, stjórnarformaður Audi þegar mótið var kynnt á heimasíðu Bayern.