Skoðun

Mikilvægur áfangi í sjálfstæðisbaráttunni

Jón Karl Helgason skrifar

Fyrir réttu ári síðan var verulegur meirihluti íslensku þjóðarinnar hlynntur því að teknar yrðu upp aðildarviðræður við Evrópusambandið. Í skoðanakönnun sem Morgunblaðið gerði á tímabilinu 28. maí til 4. júní 2009 og kynnti 13. júní kom fram að 57,9% atkvæðisbærra Íslendinga voru hlynnt aðildarviðræðum, 26,4% voru því mótfallin og 15,7% voru óákveðin. Þetta þýðir að rúmir 2/3 hlutar þeirra sem tóku afstöðu vildu hefja viðræður.

Íslensk stjórnvöld tóku mark á þessum óskum og hafa unnið síðustu tólf mánuði svo vel að þessu markmiði að á fundi sínum 17. júní ákvað leiðtogaráð Evrópusambandsins formlega að hefja aðildarviðræður við Ísland. Þetta eru góðar fréttir og viðeigandi að þessi ákvörðun hafi verið tekin á þjóðarhátíðardaginn, afmælisdegi Jóns Sigurðssonar, sem jafnframt er sá dagur sem íslenska lýðveldið var stofnað við hátíðlega athöfn á Þingvöllum árið 1944.

Staðreyndin er sú að sjálfstæðisbaráttunni lýkur aldrei. Litlar þjóðir eins og við Íslendingar þurfa stöðugt að leita nýrra leiða til að tryggja stöðu sína og sjálfstæði í ótryggum og síbreytilegum heimi. Þær eiga í grundvallaratriðum um tvennt að velja: Að treysta á einn öflugan bakhjarl (stóran bróður) eða vera þátttakendur í fjölþjóðlegu samstarfi jafningja (tilheyra öflugri fjölskyldu).

Við lýðveldisstofnun og raunar meirihluta lýðveldistímans var erlendur her í landinu og einn grundvallarþátturinn í íslenskri utanríkisstefnu snerist um að halda góðu sambandi við bandarísk stjórnvöld. Ætla má að einhliða ákvörðun tveggja ráðherra um að Ísland skyldi vera formlegur þátttakandi í innrásinni í Írak hafi verið tekin með þessa hagsmuni í huga en hún bar ekki þann árangur sem að var stefnt. Við getum ekki lengur treyst á Bandaríkin sem okkar stóra bróður. Vingjarnleg þjóðhátíðarkveðja Hillary Clinton breytir engu um þá staðreynd.

Nýlegur gjaldeyrisskiptasamningur við Kínverja og viljayfirlýsing um þátttöku þeirra í uppbyggingu íslensks orkuiðnaðar benda til þess að fleiri stórir bræður séu í veröldinni en um leið er ljóst að við Íslendingar þurfum að kanna til hlítar alla möguleika sem okkur bjóðast til að tryggja að hér geti áfram lifað sjálfstæð þjóð í siðuðu samfélagi, sem njóti efnahagslegrar og andlegrar velsældar og hafi hugsjónir um frelsi, jafnrétti og bræðralag í fyrirrúmi.

Aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið skipta afar miklu máli í því samhengi.

Hrun íslenska bankakerfisins haustið 2008 sýndi fram á veikleika íslensks samfélags, bankakerfisins, stjórnkerfisins og þess fyrirhyggju- og agaleysis sem við viljum stundum telja okkur til tekna. En um leið sýndi það fram á galla samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og þeirrar fjarstæðu sem er í því falin að ætla að halda úti sjálfstæðum örsmáum gjaldmiðli á opnum fjármálamarkaði. Í samningum fólst auk þess veigameira framsal á fullveldi þjóðarinnar en í fullri aðild. Sem aðildarþjóð værum við virkir þátttakendur í öllum þeim ákvörðunum sem teknar eru á vettvangi sambandsins; eins og er erum við algjörlega áhrifalaus.

Ég er í hópi þeirra sem bind vonir við að aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið skili góðri niðurstöðu fyrir okkur Íslendinga. Viðræðurnar marka nýtt spor í sjálfstæðisbaráttunni. Ef niðurstaða þeirra er góð getur hún tryggt stöðu og áhrif Íslands í samfélagi þjóðanna og eflt okkur til framtíðar.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×