Körfubolti

Gunnar Einarsson: Við erum klárlega að toppa á réttum tíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Einarsson er að spila frábærlega fyrir Keflavík þessa dagana.
Gunnar Einarsson er að spila frábærlega fyrir Keflavík þessa dagana. Mynd/Vilhelm
Keflvíkingurinn Gunnar Einarsson fór fyrir sínu liði í 89-83 sigra í Njarðvík í kvöld og 12 stig og 5 fráköst segja minnst um framlag hans í leiknum. Barátta Gunnars var engu lík og hann var á eftir öllum lausum boltum í þessum leik. Keflavík sló Njarðvík því út 3-1 og er komið í lokaúrslitin á móti annaðhvort KR eða Snæfell.

„Þetta var mikil barátta. Maður bjóst við hörkuleik og það er náttúrulega ekkert gefið í þessu," sagði Gunnar Einarsson í viðtali við Guðjón Guðmundsson, í útsendingu Stöð 2 Sport í kvöld.

„Ég og strákarnir förum út í þetta bara til að vinna titla og öðruvísi er þetta ekkert gaman," sagði Gunnar og bætti við: „Við erum klárlega að toppa á réttum tíma. Það skiptir öllu máli að toppa á þessum tíma því þetta er sá tími sem maður vill vera í toppstandi, toppformi og sýna þvílíkan baráttuvilja. Það er akkúrat þessi tími," sagði Gunnar sem er sér kosti við báða hugsanlega mótherja í lokaúrslitunum.

„Það eru kostir við bæði lið. Það eru styttri ferðalög í leikjunum á móti KR en við verðum með heimavallarréttinn á móti Snæfelli. Báðir kostirnir eru nokkuð góðir," sagði Gunnar sem hefur fulla trú á sínu liði í úrslitunum.

„Við getum að sjálfsögðu orðið Íslandsmeistarar. Stefnan er sett á toppinn eins og hvert annað ár því stefnan er alltaf sett á toppinn," sagði Gunnar að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×