Fótbolti

Löw: Götze gerir einföldu hlutina svo vel

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Götze fagnar marki sínu gegn Brasilíu í gær.
Götze fagnar marki sínu gegn Brasilíu í gær. Nordic Photos/AFP
Joachim Löw, landsliðsþjálfari Þýskalands, segist eiga við afar jákvætt vandamál að stríða þegar kemur að því að velja lið sitt. Þýskaland lagði Brasilíu 3-2 í vináttulandsleik í gær.

Hinir ungu Mario Götze og Andreas Schurrle voru á skotskónum í Stuttgart í gærkvöldi. Götze, sem leikur með Dortmund, er aðeins 19 ára og Schurrle, leikmaður Bayer Leverkusen, árinu eldri. Löw var himinlifandi með frammistöðu þeirra og leikmannahópinn sem hann hefur úr að velja.

„Mario Götze er afar meðvitaður um staðsetningu leikmanna á vellinum. Jafnvel þegar hann er króaður af tekst honum að finna leið út,“ sagði Löw að leik loknum.

Götze, sem var lykilmaður í meistaraliði Dortmund á síðustu leiktíð, fór á kostum gegn Hamburg um nýliðna helgi þar sem hann skoraði eitt mark og lagði upp annað. Framliggjandi miðjumaðurinn opnaði markareikning sinn með þýska landsliðinu í gær.

„Það eru einföldu hlutirnir sem hann gerir svo vel og gerir hann að sterkum leikmanni,“ sagði Löw.

Þetta var fyrsti sigur Þjóðverja á Brasilíu frá árinu 1993 eða í átján ár. Philip Lahm, fyrirliði Þjóðverja, er aldursforseti liðsins þrátt fyrir að vera aðeins 27 ára gamall. Meðalaldur þýska liðsins í gærkvöld var undir 24 ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×