„Það hreinlega gerðist ekkert hjá okkur í þriðja leikhluta. Við gerðum ekki það sem var lagt upp með og það var ekkert flæði í sókninni. Þetta var leikhlutinn þar sem þeir drápu okkur," sagði Jón Norðdal Hafsteinsson óhress í leiklok eftir tap sinna manna í Keflavík gegn KR í kvöld, 99-85.
„Við vorum í fínum málum í hálfleik en leikur liðsins hrynur í þriðja leikhluta. Þeir voru ekki að gera neina frábæra hluti heldur vorum við gríðarlega slakir," sagði Jón en liðið skoraði aðeins sjö stig í þriðja leikhluta og hleyptu heimamönnum 25 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann.
Keflvíkingar höfðu verið á fínni siglingu í deildinni fyrir leik kvöldsins og unnið fjóra leiki í röð. Jón segir að menn verði að horfa fram á veginn og gleyma leiknum.
„Þessi leikur er búinn og það er nóg eftir af deildinni. Það er allt í járnum og við munum berjast fram í síðasta leik."