Fótbolti

Birkir með tilboð frá sex löndum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birkir Bjarnason í leik með 21 árs landsliðinu.
Birkir Bjarnason í leik með 21 árs landsliðinu. Mynd/Nordic Photos/Getty
Landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason ákvað að framlengja ekki samning sinn við norska félagið Viking þar sem hann hefur spilað undanfarin sex ár og er nú að leita sér að nýju félagi.

Umboðsmaður Birkis segir í viðtali við norska fjölmiðla að Birkir hafi úr nóg að velja og verði ekki atvinnulaus lengi því að hann sé með tilboð frá félögum í sex löndum.

„Birkir er með tilboð frá mörgum félögum. Hann hefur fengið tilboð frá Hollandi, Belgíu, Þýskalandi, Ítalíu, Danmörku og Englandi. Núna er ég staddur í Þýskalandi að athuga nokkra hluti fyrir Birki," sagði Jim Solbakken umboðsmaður Birkis við TV 2 Sporten.

Solbakken vill ekki segja neitt um hvaða félög þetta eru en gefur þó upp að það sé enskt b-deildarlið sem hafi sýnt honum áhuga.

Birkir var lykilmaður í 21 árs landsliðinu sem komst í úrslitakeppni EM og hefur fengið tækifæri með íslenska landsliðinu að undanförnu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×