Íslenska kvennalandsliðið í fimleikum hefur lokið keppni á Evrópumeistaramótinu í áhaldafimleikum sem fram fór í í Brussel í Belgíu. Íslensku stelpurnar stóðu sig ágætlega og náðu 24. sæti en það var betri árangur en hjá norska og danska landsliðinu.
"Mjög hörð keppni var í gær og ljóst að róðurinn yrði erfiður fyrir íslensku keppendurnar í ljósi þess að Evrópumeistarmótið er með sterkustu mótunum í fimleikum og mjög margir keppendur að undirbúa sig fyrir Olympíuleikana sem haldnir verða í London í sumar.Að sögn Guðmundar Þórs Brynjólfssonar þjálfara liðsins var hópurinn ánægður með útkomuna enda bættu okkar keppendur sig á einstökum áhöldum," segir í fréttatilkynningu frá Fimleikasambandinu.
Bestum árangri náði Thelma Rut Hermannsdóttir sem endaði í 33.sæti í heildarkeppni seniora, en á einstökum áhöldum þá gekk Normu Dögg Róbertsdóttur best þegar hún náði 21.sæti í stökki með einkunnina 13.266.
Í íslenska liðinu eru: Jóhanna Rakel Jónasdóttir, Hildur Ólafsdóttir, Thelma Rut Hermannsdóttir, Tinna Óðinsdóttir, Þórey Kristinsdóttir og Norma Dögg Róbertsdóttir.
