Sport

Inga Elín bætti Íslandsmetið í 400 metra skriðsundi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Skessuhorn
Inga Elín Cryer, sundkona úr ÍA, setti Íslandsmet í 400m skriðsundi á fyrsta keppnisdegi á Íslandsmeistaramótinu í 25 metra laug sem hófst í Ásvallalaug í gær.

Inga Elín setti metið í úrslitasundinu þegar hún kom í mark á tímanum 4:14.61 mínútum. Hún bætti eigið met frá því á mótinu fyrir ári um 48/100 úr sekúndum.

Fimm Íslandsmet féllu í yngri aldursflokkum. Íris Ósk Hilmarsdóttir úr ÍRB tvíbætti telpnametið í 200 metra baksundi, fyrst í undanrásum og aftur í úrslitasundinu. Nýtt Íslandsmet Írisar Óskar er 2:15.95 mínútur en metið var áður í eigu Ólympíufarans Eyglóar Óskar Gústafsdóttur, 2:16.88 mínútur.

Kristinn Þórarinsson úr Fjölni tvíbætti einnig piltametið í 200 metra fjórsundi. Nýtt Íslandsmet Kristins er 2:02.49 mínútur en metið var áður í eigu Arnar Arnarsonar, 2:04.09. Metið hafði staðið í fjórtán ár eða frá árinu 1998.

Þá sló kvennaboðsundssveit ÍRB telpnametið í 4x100 metra skriðsundi. Sveitin, sem skipuð var Birtu Maríu Falsdóttur, Sunnevu Dögg Friðriksdóttur, Laufeyju Jónu Jónsdóttur og Írisi Ósk Hilmarsdóttur, kom í mark á tímanum 4:07.55. Gamla metið átti telpnasveit Óðins 4:09.09.

Keppni verður framhaldið í Ásvallalaug í dag og á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×