
Brad "One Punch" Pickett
Strax á eftir Gunnari berst Brad Pickett gegn UFC nýliðanum Neil Seery. Bardagar Pickett eru alltaf skemmtilegir og gera margir ráð fyrir að Picket gjörsigri Seery sannfærandi. Fimm af síðustu átta bardögum hans hafa verið kjörnir bardagar kvöldsins og einn kjörinn rothögg kvöldsins. Pickett er einfaldlega spennandi bardagakappi og mun mæta trylltur til leiks í heimabæ sínum London. Þetta verður fyrsti bardagi hans í fluguvigtinni eftir að hafa verið í bantamvigtinni lengst af. Pickett er mikill skemmtikraftur og labbar alltaf inn í búrið með hatt og í axlarböndum.
Michael Johnson
Michael Johnson hefur litið mjög vel út í síðustu tveimur bardögum sínum. Hann sigraði óvænt hinn reynslumikla Joe Lauzon í ágúst á síðasta ári og rotaði síðan Gleison Tibau á UFC 168 í desember síðastliðnum. Johnson hafnaði í öðru sæti í raunveruleikaseríunni The Ultimate Fighter þar sem hann þótt ekki merkilegur bardagamaður. Þar var hann mest megnis einhæfur glímukappi en hefur bætt sig gífurlega síðan þá. Hann sýndi það gegn Lauzon að hann hefur bætt boxið sitt verulega undanfarið og eru allir vegir færir í léttvigtinni. Á laugardaginn mætir hann Melvin Guillard sem hefur átt erfitt uppdráttar undanfarið en er þrátt fyrir það alltaf spennandi. Þessi bardagi gæti fleitt Johnson nær topp 10 í léttvigtinni.
Alexander Gustafsson
Svíinn knái er sá maður sem hefur komist næst því að stöðva léttþungavigtarmeistarann Jon Jones. Jones hefur farið auðveldlega í gegnum alla andstæðinga sína og bjuggust flestir við að það sama yrði uppi á teningnum þegar Alexander Gustafsson mætti Jones. Það var þó aldeilis ekki þar sem Gustafsson var hársbreidd frá því að sigra meistarann. Jones sigraði eftir umdeilda dómaraákvörðun en bardaginn var að margra mati besti bardagi ársins 2013. Margir sjá Gustafsson sem stærstu ógn Jones í léttþungavigtinni og framtíðarmeistara deildarinar. Hann þarf þó fyrst að komast í gegnum Jimi Manuwa. Með sigri er næsta víst að Gustafsson fái annað tækifæri til að berjast um titilinn og flestir spá Svíanum sigri á laugardaginn. Hann þarf þó að sýna kænsku gegn Manuwa sem hefur rotað 13 af 14 andstæðingum sínum.
Jimi Manuwa
Margir vanmeta Manuwa í bardaganum gegn Gustafsson en hann hefur unnið alla 14 bardaga sína - 13 með rothöggi eða tæknilegu rothöggi og einn með hengingu. Manuwa er gífurlega höggþungur sparkboxari og gæti Gustafsson fengið að finna fyrir því á laugardaginn. Manuwa hefur aðeins fjórum sinnum farið í aðra lotu enda vanur að klára andstæðinga sína fljótt. Það gæti vissulega þýtt að Manuwa lendi í vandræðum ef Gustafsson tekst að draga hann inn í seinni loturnar, sérstaklega í ljósi þess að bardaginn er fimm lotur. Þessi bardagi gæti hins vegar hæglega endað snemma með rothöggi frá Manuwa.
Vísir og MMA fréttir hafa tekið höndum saman í umfjöllun um MMA. Pétur Marinó er ritstjóri MMA frétta og birtir fréttir úr MMA heiminum á Vísi. Ekki gleyma að setja "like" við Facebook síðu þeirra hér.