Fótbolti

Guðmundur lagði upp mark fyrir Matthías í sigri Start

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Matthías Vilhjálmsson er búinn að skora fimm mörk í 18 leikjum á tímabilinu.
Matthías Vilhjálmsson er búinn að skora fimm mörk í 18 leikjum á tímabilinu. mynd/ikstart.np
Start hafði betur gegn Brann, 2-1, á útivelli í Íslendingaslag í norsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Fyrsta mark leiksins skoraði Ísfirðingurinn MatthíasVilhjálmsson á 17. mínútu eftir laglegan undirbúning GuðmundarKristjánssonar. Gestirnir tvöfölduðu forskotið á 61. mínútu þegar samherji Birkis Más Sævarssonar í liði Brann setti knöttinn í eigið net, 2-0.

Marcus Pedersen minnkaði muninn fyrir heimamenn, 2-1, á 81. mínútu, en gestirnir í Start héldu út og fögnuðu sætum sigri. Þeir eru nú með 34 stig í sjöunda sæti en Brann í 15. og næst neðsta sæti með 23 stig.

Viðar Örn skoraði ekki í dag.mynd/vif.no
Vålerenga vann Sogndal, 2-1, í öðrum Íslendingaslag í norsku úrvalsdeildinni þar sem Viðar Örn Kjartansson var í byrjunarliði heimamanna og Hjörtur Logi Valgarðsson í byrjunarliði gestanna.

Það dró helst til tíðinda að Viðar Örn skoraði ekki í leiknum en hann er sem fyrr langmarkahæstur í deildinni með 24 mörk í 25 leikjum.

Sigurmark Vålerenga var sjálfsmark í boði gestanna sem eru með 24 stig í 14. sæti og í mikilli fallhættu. Vålerenga er með 39 stig í sjötta sæti.

Sandnes Ulf er sem fyrr á botni deildarinnar með 18 stig, fimm stigum frá umspilssæti þegar fjórar umferðir eru eftir. Liðið tapaði á útivelli fyrir Haugesund, 2-0, í dag þar sem Hannes Þór Halldórsson, Eiður Aron Sigurbjörnsson og Hannes Þ. Sigurðsson voru allir í byrjunarliðinu.

Hannes Þór og Eiður Aron spiluðu allan leikinn, en framherjinn Hannes var tekinn af velli þegar níu mínútur voru eftir.

Þá gerðu Sarpsborg og meistarar Strömsgodset markalaust jafntefli, en GuðmundurÞórarinsson var ekki í leikmannahópi Sarpsborg í dag. Liðið með 33 stig í níunda sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×