Mikilvægt er að Sjálfstæðisflokkurinn í Kópavogi upplýsi um hvaða skrár flokkurinn hefur unnið um stjórnmálaskoðanir bæjarbúa, að mati forsvarsmanna framboðs Pírata í bænum.
Með þessu bregðast Píratar við ummælum Braga Mikaelssonar, umboðsmanns Sjálfstæðisflokksins í Kópavogsbæ, í Fréttablaðinu í gær.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið fram á að sjá lista yfir meðmælendur framboðslista annarra flokka vegna bæjarstjórnarkosninganna í Kópavogi, og sagði Bragi að tilgangurinn væri sá að strika þá af listum yfir fólk sem haft yrði samband við í kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins.
„Það er eitt að halda skrá yfir félaga í eigin flokki en að halda skrá um stjórnmálaskoðanir Kópavogsbúa almennt og án þess að samþykki þeirra liggi fyrir teljum við að geti ekki samrýmst persónuverndarlögum,“ segir Ingólfur Árni Gunnarsson, oddviti Pírata í Kópavogi.
Sigurður Líndal lagaprófessor segist ekki telja ólöglegt að halda lista yfir stjórnmálaskoðanir fólks, enda hafi slíkt verið gert árum saman.
Í yfirlýsingu skora Píratar á Persónuvernd að rannsaka málið nánar og úrskurða um hvort um lögbrot sé að ræða.
Allar fréttir af sveitarstjórnarkosningunum 2014 má nálgast á Kosningavef Vísis, visir.is/kosningar.
