Fótbolti

Figo ætlar að keppa við Blatter og Ginola um forsetastól FIFA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Figo og eiginkona hans Helen Svedin.
Luis Figo og eiginkona hans Helen Svedin. Vísir/Getty
Forsetakosningarnar hjá Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA, verða athyglisverðar nú þegar hver gamlir heimsfrægir fótboltamenn eru farnir að bjóða sig fram gegn núverandi formanni Sepp Blatter.

Portúgalinn Luis Figo hefur nú ákveðið að bjóða sig fram gegn Sepp Blatter en áður hafði Frakkinn David Ginola tilkynnt um framboð sitt.

Hinn 78 ára gamli Sepp Blatter hefur verið forseti FIFA frá 1998 og vill nú vinna sér inn fimmta kjörtímabil sitt í forsetastólnum.

Fyrir framboð Luis Figo voru nokkrir búnir að bjóða sig fram gegn Blatter. Frakkarnir David Ginola og Jerome Champagne, Alí prins af Jórdan og Michael van Praag, forseti hollenska knattspyrnsambandisins.

Luis Figo er 42 ára gamall, og var kosinn besti knattspyrnumaður heims árið 2001 og besti knattspyrnumaður Evrópu árið 2000.

Figo lék á sínu bestu árum sem knattspyrnumaður með bæði Barcelona og Real Madrid en það mikla athygli þegar Real Madrid keypti hann frá Barcelona sumarið 2000 og gerði hann um leið að dýrasta knattspyrnumanni heims.

„Fótboltinn hefur gefið mér svo mikið í mínu lífi og ég vil gefa fótboltanum eitthvað til baka," sagði Luis Figo í viðtali við CNN.

„Ég horfi á orðspor FIFA í dag og ég er ekki hrifinn. Fótboltinn á betra skilið. Á síðustu vikum, mánuðum og jafnvel árum þá hef ég séð ímynd knattspyrnunnar spillast. Ég tala reglulega við margt fólk innan fótboltans og fullt af þessu fólki segir mér að eitthvað þurfi að gerast," sagði Figo í fyrrnefndu viðtali.

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea og landi Figo, er einn af þeim sem hefur þegar stutt hann opinberlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×