
Myndböndin eru misjöfn en á mörgum þeirra virðist sem að slagsmálin hafi verið skipulögð fyrirfram og þá jafnvel í gegnum síðuna sjálfa. Þannig hafi ungmenni gert samkomulag um að hittast í þeim tilgangi að slást og myndbönd af slagsmálunum svo sett á síðuna. Jafnvel eru dæmi um að ungmenni skori á einhvern að mæta sér í slag. Ef horft er á myndböndin er ljóst að um alvöru er að ræða. Oft ganga ungmennin nokkuð hart fram, þau slá þungum höggum, sparka og sjá má bæði áverka á þeim og blóð. Þá safnast oft hópur saman og fylgist með slagsmálunum, hvetur þá sem slást áfram og tekur myndbönd.
Á síðunni má einnig sjá myndbönd þar sem ráðist er á börn eða ungmenni að því virðist þeim nokkuð að fyrirvaralausu og gengið í skrokk á þeim.

Dæmi eru um að myndbönd sem birt eru á síðunni séu tekin upp á skólalóðum í borginni. Skólastjórnendur hafa áhyggjur af því að mál sem þessi séu í auknum mæli að koma upp.
„Það eru fleiri mál sem tengjast netinu sem koma inn í skólastarfið. Sum eru náttúrulega mjög alvarlegs eðlis,“ segir Guðlaug Erla Gunnarsdóttir, formaður Félags skólastjórnenda í Reykjavík. Hún segir alvarlegustu málin vera tilkynnt til lögreglunnar en önnur mál séu unnin með námsráðgjöfum, börnunum og foreldrum þeirra.
Hún segir börnin ekki alltaf átta sig á hversu alvarlegt það geti verið að deila myndefni sem þessu á netinu.
„Þá kemur til kasta okkar sem störfum í grunnskólunum og ekki síður foreldra að vera upplýstir um það hvað börnin þeirra eru að gera á netinu,“ segir Guðlaug Erla.