Vladimir Putin, forseti Rússlands, segir að aðskilnaðarsinnar í Austur-Úkraínu hafi umkringt sex til átta þúsund hermenn. Aðskilnaðarsinnar vilja að hermennirnir gefist upp áður en vopnahlé tekur gildi á sunnudaginn. Yfirvöld í Kænugarði segja aftur á móti að hermennirnir séu ekki umkringdir.
Putin tók ekki sérstaklega fram hver umræddir hermenn væru, en á vef AFP segir að þeir séu í bænum Debaltseve. Þar hafa úkraínskir hermenn orðið fyrir þungum árásum stórskotaliðs síðustu daga.
„Við köllum eftir því að báðar hliðar haldi aftur af sér til að koma í veg fyrir óþarfar blóðsúthellingar,“ sagði forsetinn eftir fund sinn með Angelu Merkel, Francois Hollande og Petro Poroshenko.
Í samtali við AFP sagði talsmaður Úkraínuhers að hermennirnir væru ekki umkringdir, en mikil spenna væri á svæðinu við Debaltseve.
