Körfubolti

Hannes: Skilar sér betur til ungu kynslóðarinnar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, segir að með áframhaldandi reglu um að einn erlendur leikmaður má vera inni á vellinum í einu í hverju liði stuðli að því að fleiri ungir leikmenn fái tækifæri í meistaraflokki.

„Það var ekki hart tekist á, en vel. Það var tekist á um þetta heillengi í nefndarstörfunum í gærkvöldi og svo aðeins á þinginu í dag. Þetta var mjög málefnalegt og eins og maður vildi hafa þetta víst þetta var enn einu sinni til umræðu,” sagði Hannes Jón í samtali við Eirík Stefán Ásgeirsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Síðan endaði þetta með því að kosið var um þetta og að stór meirihluti vildi hafa óbreytt ástand eða 73 atkvæði, en 38 atkvæði vildu breyta. Þetta er töluverð breyting á því sem hefur verið á undanförnum árum þar sem þetta hefur verið mjög jafnt.”

Hannes telur að með þessari áframhaldandi 4+1 reglu stuðli KKÍ og félögin einnig að því að ungir leikmenn fái tækifæri í meistaraflokki.

„Það var það sem var rætt töluvert og það má segja að það sé ein helsta ástæðan fyrir þessu. Menn telja að þetta skili sér betur til ungu kynslóðarinnar og unga kynslóðin fær því betri tækifæri í meistaraflokki og þannig áfram,” en aðspurður um hvort deildin saknaði gæða erlendru leikmannana svaraði Hannes:

„Það var töluverð umræða um það líka, en gæði íslensku leikmannana hafa líka batnað. Þetta var beggja blands og þetta var lokaniðurstaðan.”

Allt viðtalið í heild sinni má sjá hér í glugganum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×