Körfubolti

Curry verður kosinn bestur í NBA-deildinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stephen Curry hefur farið á kostum í vetur.
Stephen Curry hefur farið á kostum í vetur. vísir/getty
Heimildamenn bandaríska íþróttafréttarisans ESPN segja að Stephen Curry, leikstjórnandi Golden State Warriors, hafi verið kosinn besti leikmaður deildarinnar, eða „MVP“.

Þetta verður tilkynnt síðar í dag og fær Curry verðlaunin fyrir annan leik Golden State og Memphis í undanúrslitum vestursins. Warriors vann fyrsta leikinn í nótt.

Curry og kollegi hans hjá Houston Rockets, James Harden, hafa þótt líklegastir til að hreppa þennan eftirsótta titil, en einnig komu til greina Russell Westbrook hjá OKC Thunder, Anthony Davis, miðherji New Orleans og LeBron James.

Kevin Durant, leikmaður OKC Thunder sem kosinn var bestur í fyrra, átti aldrei möguleika á að verja titilinn þar sem hann spilaði aðeins 27 leiki vegna meiðsla.

Stephen Curry hitar upp í nótt.vísir/getty
Stephen Curry fór hamförum með Golden State í deildarkeppninni og leiddi sitt lið til 67 sigra. Hann er eini leikstjórnandinn í söguninni ásamt Magic Johnson sem hefur verið stigahæstur hjá liði sem vann 65 leiki eða fleiri.

Curry verður fyrsti leikmaður Warriors sem kosinn er bestur síðan Wilt Chamberlain hlaut nafnbótina árið 1960, eða fyrir 55 árum. Warriors spilaði þá í Philadelphia.

Stephen Curry bætti eigið met yfir flestar þriggja stiga körfur á tímabilinu. Hann skoraði 286 körfur fyrir utan línuna, en tveggja ára gamalt met hans voru 272 þristar.

Hann skoraði 23,8 stig að meðaltali í leik í deildarkeppninni, gaf 7,7 stoðsendingar, tók 4,3 fráköst og stal 2 boltum. Hann skaut 48,7 prósent í teignum og 44,3 prósent fyrir utan hann.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×