Körfubolti

Þór heldur áfram að safna leikmönnum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Benedikt heldur áfram að safna leikmönnum.
Benedikt heldur áfram að safna leikmönnum. vísir/vilhelm
Ragnar Helgi Friðriksson er genginn í raðir Þór Akureyri í fyrstu deild karla, en hann kemur á venslasamning frá Njarðvík til Þór.

Ragnar er einn af efnilegri leikstjórnendum landsins og heldur nú norður yfir heiðar, en þetta kemur fram á heimasíðu Þórs.

„Ragnar er mikill hvalreki fyrir okkur. Hann er einn allra efnilegasti leikstjórnandi landsins. Þetta kom óvænt upp og er búið að gerast hratt. Þegar okkur bauðst að fá Ragnar á venslasamning vorum við snöggir að taka honum fagnandi," sagði Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs, í viðtali við heimasíðu Þórs.

„Hann er ekki bara gríðarlegt efni heldur er hann sterkur andlega og mun smita góðu viðhorfi inn í okkar sterka hóp. Ég hef spilað gegn honum í yngri flokkunum og lengi verið mjög hrifinn af honum sem leikmanni og er viss um að hann mun halda áfram að vaxa og dafna hjá okkur á Akureyri."

Ragnar Helgi er bróðir Elvars Más Friðrikssonar, fyrrverandi leikmanns Njarðvíkur og landsliðsmanns, en Benedikt er himinilfandi með að fá Ragnar til liðs við sína menn.

„Hann kemur úr frábæru yngri flokka prógrammi í Njarðvík og er því vel skólaður til af mönnum eins og Einari Árna og Friðrik Inga og fleiri topp þjálfurum," sagði Benedikt að lokum.

Ragnar Helgi er fjórði leikmaðurinn sem Benedikt fær norður, en hinir þrír eru Danero Thomas, Þröstur Leó Jóhannsson og Sindri Davíðsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×