Sport

Hrafnhildur: Er ekki með fullan hraða

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hrafnhildur Lúthersdóttir var stjarna helgarinnar á Íslandsmeistaramótinu í 25 m laug þar sem hún vann alls tíu gullverðlaun, bætti sex Íslandsmet og jafnaði það sjöunda.

Sjá einnig: Sjöunda Íslandsmet Hrafnhildar

Hrafnhildur jafnaði metið í 50 m bringusundi í dag en hún sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld að það væri ekki algengt.

„Það er mjög óalgengt að jafna met - hvað þá í jafn stuttu sundi og 50 metrum. Ég er því mjög ánægð með það, sérstaklega þar sem ég hef verið í stífum æfingum og ekki með fullan hraða,“ segir Hrafnhildur.

Aðeins um 20 mínútum eftir 50 m bringusundið keppti hún í 400 m fjórsundi þar sem hún gerði sér lítið fyrir og bætti Íslandsmet Eyglóar Óskar Gústafsdóttur um tæpar þrjár sekúndur.

Sjá einnig: Eygló og Hrafnhildur nálægt bestu tímum Evrópu

„Ég syndi 400 m fjórsund oft og því var ég nokkuð stressuð fyrir það. Ég reyndi bara að synda eins hratt og ég gat og það gekk upp. Ég er því mjög ánægð.“

Hún segir að það sé ekkert leyndarmál á bak við velgengni hennar.

„Ég tek vítamínin mín og reyni að borða eins hollt og ég get, þó að ég eigi mína nammidaga. Ég reyni að sofa eins vel og ég get, æfi, lyfti og gef mig alla í þetta.“

Hún hélt upp á árangurinn á uppskeruhátíð Sundsambandsins í kvöld en fer svo snemma í háttinn.

„Ég er bara þreytt eftir helgina og þarf á því að halda,“ sagði hún og hló.


Tengdar fréttir

SH með tvö Íslandsmet | Fimmta met Hrafnhildar

Hrafnhildur Lúthersdóttir, sundkona úr SH, er hvergi nærri hætt að slá Íslandsmet á Íslandsmeistaramótinu í 25 metra laug sem fram fer í Ásvallarlaug um helgina.

Eygló Ósk með Íslandsmet í baksundi

Eygló Ósk Gústafsdóttir, úr Ægi, setti Íslandsmet 100 metra baksundi á Íslandsmótinu í 25 metra laug sem haldið er í Ásvallalaug í Hafnarfirði um helgina.

Íslandsmet hjá sveit SH í fjórsundi

Sveit Sundfélags Hafnarfjarðar bætti í dag Íslandsmetið í fjórum sinnum 50 metra fjórsundi, en Íslandsmótið í 25 metra laug fer fram í Hafnarfirði um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×