Sport

Eygló áttunda inn í undanúrslit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eygló Ósk Gústafsdóttir.
Eygló Ósk Gústafsdóttir. Vísir/Pjetur
Eygló Ósk Gústafsdóttir náði áttunda besta tímanum í undanrásum í 100 metra baksundi á Evrópumeistaramótinu í 25 metra laug í Netanya í Ísrael en þetta er fyrsti keppnisdagurinn á mótinu.

Eygló Ósk kom í mark á 58,82 sekúndum sem er 42 hundraðshlutum frá Íslandsmetinu sem hún setti á Íslandsmeistaramótinu í síðasta mánuði. Metið hennar er 58,40 sekúndur.  

Eygló Ósk synti í þriðja riðli af fimm í undanrásunum og var hún á þriðju brautinni. Eygló byrjaði sundið ekki vel og var hún sjötta eftir fyrstu fimmtíu metrana. Hún bætti sig á seinni 50 metraunum og endaði að lokum í þriðja sætinu í sínum riðli.

Fimm sundkonur komust framúr Eygló í síðustu tveimur riðlunum og alls voru því sjö sem syntu hraðar en íslenska sundkonan í þessum undanrásum.

Tékkinn Simona Baumrtova, sem vann riðilinn hennar Eyglóar, náði öðrum besta tímanum en besta tímann átti Ungverjinn Katinka Honka sem synti á 57,13 sekúndum.

Eygló varð 1,69 sekúndum á eftir Honka. Hún varð önnur Norðurlandabúa en Svíinn Louise Hansson náði þriðja besta tímanum.

Eygló syndir í undanúrslitum seinna í dag en úrslitasundið fer síðan fram á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×