Fótbolti

Englendingar fá miklu færri miða á EM en Íslendingar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslendingar munu örugglega fjölmenna til Frakklands.
Íslendingar munu örugglega fjölmenna til Frakklands. Vísir/Vilhelm
Englendingar eru að fá mun færri miða á leiki Evrópumótsins en Íslendingar og þeir hneykslast mikið á því. Enskur blaðamaður sló því upp í Daily Star í gær að litla Ísland sé að fá átta þúsund fleiri miða en stórveldið England.

Þetta er enn eitt dæmið um hversu heppnir Íslendingar voru með riðil á Evrópumótinu. Íslenska liðið mætir ekki bara mótherjum sem liðið á ágæta möguleika á móti þá fara síðustu tveir leikir liðsins líka fram á tiltölulega stórum völlum.

Búist er við að meira en 50 þúsund Englendingar fari yfir Ermasundið til þess að fylgjast með leikjum enska liðsins en Englendingar fá „bara" 23.520 miða á þrjá leiki liðsins í riðlakeppninni.

Englendingar eru í B-riðli og mæta Rússlandi, Wales og Slóvakíu. Leikir enska liðsins fara fram í Marseille, Lens og Saint-Étienne.

Enski blaðamaðurinn skrifar um það að þjóð sem telur 323 þúsund íbúa muni fá 31.240 miða sem þýðir að það er einn miði á hverja tíu Íslendinga. Englendingar eru aftur á móti 54 milljónir sem þýðir að það er einn miði í boði fyrir hverja 2.254 Englendinga.

Enskir stuðningsmenn fá 10.720 miða á fyrsta leikinn við Rússa í Marseille, þeir fá bara 6080 miða á annan leikinn á móti Wales í Lands og svo 6720 miða á lokaleikinn við Slóvakíu í Saint-Etienne.

Enski stuðningsmaðurinn Simon Harris, sem er aðalmaðurinn í stuðningsmannaklúbbi enska landsliðsins í London, efast um hvort allir miðarnir sem Ísland á rétt á verði keyptir.  „Það er ekki mikið viðskiptavit í því að láta lönd með svo fáa stuðningsmenn fá svo marga miða," sagði Simon Harris. Hann hefur kannski vanmetið áhugann á Íslandi sem er mjög mikill.

Ísland er ekki eina þjóðin sem fær fleiri miða en Englendingar því ellefu aðrar þjóðir fá fleiri miða en þeir og þar á meðal er Albanía.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×