Nokkur verkefnanna komu til framkvæmda, svo sem hin vinsæla náttúrulaug í Valbjargargjá en fjölmörg voru slegin af þegar gerð var aðför að stjórn Ferðamálasamtaka Suðurnesja sem var stýrt af Kristjáni Pálssyni.

Hann segir að þegar þetta var komið í gegn hafi hafist mikil áróðursbylgja gegn sitjandi stjórn Ferðamálasamtaka Suðurnesja þar sem beitt var öllum brögðum til að koma henni frá á næsta aðalfundi þar á eftir og voru Allrahanda og Bláa lónið þar fremst í flokki. Niðurstaðan varð sú að Kristján gaf ekki kost á sér. Í kjölfarið kom nýr samgönguráðherra Hanna Birna Kristjánsdóttir, og dró hún fyrri ákvörðun Ögmundar Jónassonar til baka um einkaleyfi til Suðurnesja. „Þannig töpuðu Suðurnesin sennilega um 400 milljónum króna í hagnað árlega sem rennur áfram til Allrahanda og Kynnisferða,“ segir Kristján.
Eftir að ný stjórn tók við starfi Kristjáns var leigusamningi við landeigendur sagt upp og viðhaldi og framkvæmdum á svæðinu hætt.
Nýr formaður samtakanna var kosinn á síðasta aðalfundi félagsins, Johan D. Jónsson. Hann ætlar að snúa vörn í sókn. „Það er fyrst og fremst fjármagn sem skortir. Hver á að borga? Það er spurningin. Er það sá sem selur þjónustuna, eða sá sem á landið eða þeir sem nota þjónustuna? Það á eftir að fara í viðræður við landeigendur um stöðuna. Það er nýtt form á uppbyggingu á ferðamannaþjónustu á svæðinu. Að þessu er verið að vinna á Reykjanesi og í ferðamálasamtökunum. Þá kemur Reykjanes Jarðvangur inn í þetta líka sem sveitarfélagið styður við, ég hef ríkan vilja til að leysa þessi mál til góðs, menn þurfa bara að stilla sig saman,“ upplýsir Johan og segir að það þurfi að hraða uppbyggingu á svæðinu, bæta samgöngur og aðstöðu ferðamanna.