Fótbolti

Diego: Dreymir um að spila með Íslandi á EM í sumar

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Hægri bakvörðurinn Diego.
Hægri bakvörðurinn Diego. Vísir/Getty
Diego Jóhannesson gæti leikið fyrsta leik sinn fyrir Íslands hönd á morgun en hann var valinn í landsliðshópinn í fyrsta sinn fyrir leik Íslands og Bandaríkjanna annað kvöld.

Diego hefur lýst yfir áhuga undanfarnar vikur að spila fyrir íslenska landsliðinu en þetta er í fyrsta sinn sem hann kemur til greina eftir að hafa fengið íslenskt vegabréf á dögunum.

Diego fékk leyfi frá félagsliði sínu, Real Oviedo, til þess að taka þátt í þessu verkefni en hann missir af mikilvægum toppslag gegn Alaves í spænsku 2. deildinni í kvöld.

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég er valinn og ég er ánægður með þetta tækifæri. Mér líður vel, við erum aðeins búnir að æfa einu sinni og ég hef ekki haft mikinn tíma til þess að kynnast strákunum,“ sagði Diego en herbergisfélagi hans, Hjörtur Hermannsson, hefur aðstoðað hann.

„Hann er góður félagi og hefur hjálpað mér hérna. Þetta virðist vera góður hópur og andrúmsloftið er gott. Við vitum að það er erfiður leikur framundan á sunnudaginn og þetta verður áskorun fyrir okkur ungu leikmennina að sanna okkur fyrir þjálfurunum.“

Diego virðist ekki ætla að gefa upp alla von um að hann fari með landsliðinu á EM.

„Það er of snemmt að hugsa út í það en ég mun gera mitt besta hér og vonandi fæ ég tækifæri annað kvöld. Mig dreymir um að spila fyrir Ísland í framtíðinni og ef það gerist í Frakklandi mun draumurinn rætast.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×