Fótbolti

Eins og ef Lars Lagerbäck ætlaði að velja Aron Jóhannsson

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lars Lagerbäck, Didier Deschamps og Aron Jóhansson.
Lars Lagerbäck, Didier Deschamps og Aron Jóhansson. Vísir/Getty
Didier Deschamps, þjálfari franska landsliðsins, hefur ekkert verið mikið að koma sér undan því að tala um þá leikmenn sem koma til greina í EM-hópinn fyrir Evrópumótið í sumar en hann var kannski aðeins of fljótur á sér í sjónvarpsviðtali á dögunum.

Deschamps var í viðtali í sjónvarpsþættinum Canal Foobtall Club (Sjá fyrir neðan) og talaði þá um þá leikmenn sem hann væri að fylgjast með fyrir komandi verkefni í sumar. Talið barst að varnarleiknum sem hefur verið allt annað en sannfærandi að undanförnu.

Sjónvarpsmaðurinn á Canal Plus spurði Deschamps um það hvort að Aymeric Laporte, varnarmaður Atletico Bilbao, ætti möguleika á því að komast í EM-hópinn. Svar Deschamps kom upp um þekkingarleysi franska landsliðsþjálfarans.

„Það er mikil samkeppni um sæti í liðinu. Mathieu í Barcelona, Koulibaly í Napoli," sagði Didier Deschamps.

Vandamálið er það að Kalidou Koulibaly hefur ákveðið að velja frekar að spila fyrir landslið Senegal en að spila fyrir franska landsliðinu. Báðir foreldrar hans eru frá Senegal.

Kalidou Koulibaly hefur spilað 11 leiki fyrir tuttugu ára landsliðið Frakka en valdi Senegal í september síðastliðnum. Hann hefur þegar spilað fjóra A-landsleiki með Senegal og hefur fyrirgert rétti sínum að spila með franska landsliðinu.

Þegar sjónvarpsmaðurinn gerði Deschamps grein fyrir því að Koulibaly væri landsliðsmaður Senegal varð franski landsliðsþjálfarinn frekar vandræðalegur.

„Er það satt? Við sjáum til," sagði Deschamps. Þetta var frekar neyðarlegt fyrir þjálfarann enda sjáum við ekki íslenska landsliðsþjálfarann Lars Lagerbäck tala um möguleikann á því að taka Aron Jóhannsson með til Frakklands.

Aron Jóhannsson spilaði með yngri landsliðum Íslands en valdi síðan að spila með bandaríska landsliðinu og spilaði fyrstur Íslendinga á Heimsmeistaramótinu í fótbolta þegar hann kom inná á HM í Brasilíu 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×