Sport

Hrafnhildur: Ætla að gera góða hluti á EM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hrafnhildur Lúthersdóttir segist vera ánægður með afrakstur helgarinnar á Íslandsmeistaramótinu í 50 m laug sem lauk í Laugardalslaug síðdegis.

Sjá einnig: Eygló nálægt Íslandsmetinu

„Ég er að ná mun betri árangri nú en um síðustu helgi og ég er mjög ánægð miðað við að ég er í miðjum æfingum eins og stendur,“ sagði Hrafnhildur sem er að undirbúa sig að kappi fyrir EM í London í næsta mánuði.

„Við höfum verið í hörkuæfingum og því veit maður ekki alveg hvar maður stendur á heimsvísu eins og er. En þá er gaman að geta farið á EM og séð hvar maður stendur.“

Hrafnhildur lauk sínu háskólanámi í Bandaríkjunum fyrir nokkru en hefur áfram dvalið úti við æfingar.

„Það er hefur svolítið erfitt að keppa eins mikið og maður vill. Svo þegar maður er að keppa þá er maður í miðjum æfingum.“

„En þetta er gott til framtíðar. Ég get bara einbeitt mér að því að æfa á meðan að einhverjir aðrir eru að berjast við að ná lágmörkunum.“

Hún er vongóð fyrir EM í London. „Miðað við hvernig ég stóð mig á HM síðasta sumar, miðað við aðra Evrópubúa, þá ætti ég að standa nokkuð vel. Ég fór í úrslit í tveimur greinum á HM og því ætti ég að geta gert góða hluti á EM.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×