Trúarskoðun er ekki nægileg ástæða til að komast hjá því að taka í hönd kennara þíns fyrir og eftir tíma í skólum í Sviss. Tveir drengir höfðu fengið undanþágu frá rótgróinni hefð þar í landi vegna trúarskoðana sinna þar sem þeir mega ekki snerta konur.
Yfirvöld í Sviss hafa nú úrskurðað að haldi drengirnir áfram að neita að taka í hönd kennara síns geti ríkið sektað foreldrana um allt að fimm þúsund dali, eða um rúmar 600 þúsund krónur.
Yfirvöld í héraðinu Basel segja kennara hafa rétt á því að krefjast handabands. Dómsmálaráðherra Sviss segir handaböndin vera hluta af menningu landsins.
Samkvæmt AFP fréttaveitunni olli það miklu uppnámi í Sviss í síðasta mánuði, þegar í ljós kom að skóli hafði leyft tveimur bræðrum frá Sýrlandi, 14 og 15 ára, að sleppa við að taka í hönd kennara síns, þar sem að um konu væri að ráða.
Samtök Múslima í Basel segja yfirvöld þar stíga út fyrir valdsvið sitt. Þá þykir verra að yfirvöld hafi ekki frekar reynt að miðla í málinu, frekar en að úrskurða í því.
