„Hann er ein af þessum upprennandi stjörnum í Bretlandi. Hann hélt alveg stórkostlega tónleika í Eldborg fyrir tveimur árum. Mér fannst alveg tilvalið að fá hann aftur núna því að hann var að koma með nýja plötu. Þessi plata hefur verið að fá frábæra dóma. Hann hefur látið lítið fara fyrir sér síðustu tvö ár þangað til núna í sumar og hann er ekkert að tvínóna við þetta og kemur nánast beint til Íslands,“ segir Guðbjartur Finnbjörnsson, skipuleggjandi tónleikanna, sem er nú að flytja Tom Odell til landsins í annað sinn.

Tom vann BRIT critics’ choice verðlaunin árið 2013. Það ár gaf hann út sína fyrstu plötu í fullri lengd, Long Way Down, en sú plata stökk beint á topp vinsældalistans í Bretlandi. Áður hafði hann gefið út tvær EP-plötur, Songs from Another Love og The Another Love EP. Lag Toms Another Love, lagið sem kom honum á kortið, naut gífurlegra vinsælda þegar það kom út árið 2012 og fór meðal annars í tíunda sæti breska vinsældalistans og í fyrsta sætið í Belgíu. Í júní á þessu ári gaf hann út plötuna Wrong Crowd og hefur verið að fylgja henni eftir með tónleikahaldi í Bandaríkjunum og Evrópu.
Tónleikarnir verða eins og áður segir í Eldborgarsal Hörpu 24. ágúst og hefst miðasalan miðvikudaginn 3. ágúst.