Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, varaði í dag Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, við því að gagnrýna sig fyrir meint mannréttindabrot. Hundruð hafa látið lífið í „stríði“ Duterte gegn fíkniefnum í Filippseyjum.
Hann hefur gefið grænt ljós á morð á fíkniefnasölum og jafnvel neytendum. Sameinuðu þjóðirnar hafa gagnrýnt hið meinta stríð og segja það brot á mannréttindum. Kaþólska kirkjan hefur einnig gagnrýnt ástandið.
Bæði Duterte og Obama eru á ráðstefnu þjóða í Suðaustur-Asíu.
Duterte segist engar áhyggjur hafa af skoðunum annarra og sagði hann blaðamönnum í dag að hann myndi alls ekki taka við skipunum frá Bandaríkjunum.
„Þú verður að sýna virðingu. Ekki kasta fram spurningum og yfirlýsingum. Hórusonur, ég mun bölva þér á þessari ráðstefnu," sagði forsetinn um Obama á blaðamannafundi í dag.
Fjölmiðlar ytra eru reyndar ekki sammála um hvort að Duterte hafi kallað Obama hóruson eða tíkarson.
Minnst 2.400 látnir
Talið er að minnst 2.400 séu látnir í „stríðinu“ gegn fíkniefnum, en Duterte segist eiga von á fleiri dauðsföllum.
„Fleiri munu deyja. Fullt af fólki mun deyja þar til síðasti sölumaðurinn er kominn af götunum, þar til síðasti framleiðandi fíkniefna hefur verið drepinn. Við munum halda áfram og ég mun halda áfram.“
Uppfært 23:31
Í kjölfar ummæla Duterte hefur Obama aflýst fyrirhuguðum fundi þeirra. Hann hyggst þess í stað funda með forseta Suður-Kóreu.
Kallaði Obama hóruson
Samúel Karl Ólason skrifar
