Fótbolti

Hélt að áhugi Barcelona á sér væri grín

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jasper Cillesen er mættur til Barcelona.
Jasper Cillesen er mættur til Barcelona. vísir/getty
Hollenski landsliðsmarkvörðurinn Jasper Cillesen viðurkennir að hann trúði ekki að áhugi Barcelona á sér væri raunverulegur.

Þegar Börsungar seldu Claudio Bravo til Manchester City sóttist Katalóníurisinn eftir að fá Cillesen frá Ajax. Það gekk eftir en Barcelona borgaði Ajax 15 milljónir evra fyrir markvörðinn.

„Þegar umboðsmaðurinn minn sagði mér frá áhuga Barcelona spurði ég hann hvort hann væri að grínast,“ segir Cillesen í viðtali við sjónvarpsstöð Barcelona.

„Ég trúði ekki að besta félag í heimi hefði áhuga á mér,“ bætir Cillesen við en hann berst nú um markvarðarstöðuna við Þjóðverjann Marc-André ter Stegen.

Cillesen hefur fjórum sinnum orðið hollenskur meistari með Ajax en setur nú stefnuna á stærsta titilinn sem í boði er.

„Ég vil vinna titla hjá Barcelona og ég væri til í að vera markvörðurinn sem vinnur Meistaradeildina sem byrjunarliðsmaður,“ segir Jasper Cillesen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×